Kópavogssögur hefja göngu sína

Friðrik Baldursson er fyrsti viðmælandi í Kópavogssögum.
Friðrik Baldursson er fyrsti viðmælandi í Kópavogssögum.

Kópavogssögur hefja göngu sína í dag. Í þeim segir fólk sem eru uppaldir Kópavogsbúar eða hafa sterk tengsl við bæinn frá skemmtilegum sögum úr Kópavogi.

„Bærinn fagnar 70 ára afmæli í ár og í tengslum við það fannst okkur tilvalið fá að heyra sögur Kópavogsfólks úr ýmsum áttum. Sögurnar varpa ljósi á bæjarbraginn hér í Kópavogi og veita innsýn inn í sögu bæjarins. Ég hlakka til að fylgjast með Kópavogssögum og hvet íbúa og aðra áhugasama til þess að gera það,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Fyrstur til þess að segja sína Kópavogssögu er Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs sem er fæddur í Fæðingarheimili Kópavogs árið 1960.

„Þegar ég var að alast upp voru sumarfríin löng og ég hljóp um Kársnesið eftirlitslaust og lék mér í nýbyggingunum og fjörunni. Svo var farið í dagsferðir með nesti þangað sem núna er Salahverfið og Lindahverfið eða í Gálgahraunið út á Álftanesi, allt skemmtilegir ævintýraheimar. Það voru stórir árganga barna á Kársnesinu á þessum árum og mikið um að vera í leikjum alveg fram á kvöld úti á götu. Við vorum í brennó, lékum Fallin spýta og Einakrónu og Fram fram fylking. Og svo voru líka götubardagar milli ýmissa fylkinga. Ég hef oft á fullorðinsárum velt fyrir mér hvernig þetta var skipulagt. Allt í einu vissu bara allir að það væri bardagi niðri á Þinghólsbraut og þangað var skundað með spýtur og skildi og farið að skylmast og hörfað og sótt. Og það var ekki verið að berjast um neitt, þetta var bara leikur,“ segir Friðrik meðal annars í fyrstu Kópavogssögunni.

Kópavogssögur verða birtar á vef Kópavogs á þriggja vikna fresti og samfélagsmiðlum bæjarins.