Leikskólar fá spjaldtölvur

Fulltrúar leikskólanna með spjaldtölvurnar
Fulltrúar leikskólanna með spjaldtölvurnar
Átján leikskólar í Kópavogi fengu í dag afhentar spjaldtölvur sem fjármagnaðar eru af Kópavogsbæ. Er það í takt við stefnu bæjarins um upplýsingatækni í leikskólum. Með þessu er verið að stuðla að fjölbreytni í kennslu leikskólanna. 

Fyrr í haust fengu allir leikskólarnir borðtölvur sem einnig eru notaður við kennslu og á næsta ári er stefnt að því að setja upp öruggt þráðlaust net í öllum leikskólunum.

Kópavogur er eitt fárra sveitarfélaga sem mótað hefur sér stefnu í upplýsingatækni í leikskólum. Stefnan var samþykkt í haust. Í henni segir m.a. að með góðu aðgengi að upplýsingatækni sé leikskólum betur gert kleift að koma til móts við kröfur nútímans. Mikilvægt sé að börn fái þjálfun í nútímatækni.

Nokkrir leikskólar bæjarins hafa að undanförnu prófað að nota spjaldtölvur við leik og kennslu og hefur það borið góðan árangur.

Fulltrúar leikskólanna tóku á móti spjaldtölvunum í bæjarstjórnarsal Kópavogs fyrr í dag og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.