Leikskólasýningar og gjörningur á göngugötunni

Götuleikhúsið bregður á leik sumarið 2020.
Götuleikhúsið bregður á leik sumarið 2020.

Götuleikhús Kópavogs hefur venju samkvæmt verið starfrækt í sumar. Götuleikhúsið eru hluti af Vinnuskóla Kópavogs og verið liður af fjölbreyttri starfsemi skólans undanfarin ár. Í ár samanstendur hópurinn af sextán unglingum á aldrinum 14-16 ára. Hákon Örn Helgason og Elísabet Skagfjörð stýra hópnum í sumar. 

Götuleikhúsið ferðaðist á milli leikskóla í Kópavogi og sýndi frumsamið leikrit. Sýningin var unnin samsköpunarferli sem þýðir að allir í hópnum komu að gerð leikritsins. Hver og einn kom með tillögu að senu út frá verkefnum sem leikstjórarnir lögðu fyrir og ákváðu svo í sameiningu hvað af því efni sem þau sköpuðu væri skemmtilegast að setja í sýninguna. Hákon og Elísabet skrifuðu svo handrit út frá því sem krakkarnir léku fyrir hvort annað. Að sögn leikstjóranna hafa sýningarnar gengið framar öllum vonum og leikskólabörnin haft gaman að enda sýningin sniðin að þeirra aldurshópi.

Eftir að leikskólarnir fóru í sumarfrí einbeitir hópurinn sér að  öðruvísi verkefnum. Hákon sem stundar nám við Listaháskóla Íslands hefur lært ýmislegt um gjörninga í Listaháskólanum og kennir unglingunum nýjar aðferðir til að skapa list. Kópavogur býður upp á marga góða staði, bæði inni og úti, og mun hópurinn leggjast í rannsóknarvinnu til að finna út hvaða staðir henta gjörningunum best. Hákon hefur augastað á tiltekinni staðsetningu sem hann kýs að kalla stærstu göngugötu Kópavogs en þá segist hann eiga við Smáralindina. Að hans mati býður verslunarmiðstöðin upp á marga möguleika fyrir gjörningalist auk þess sem áhorfendur skorti þar aldrei.

Krakkarnir í götuleikhúsinu hlakka til að sýna fyrir áhorfendur af öllum aldri. Gjörningarnir sem þau koma til með að skapa munu vera gerð út frá þeirra áhugamálum og hugðarefnum. Fyrir Hákoni snýst götuleikhúsið í Kópavogi fyrst og fremst um að efla leikhúsáhuga ungmenna og glæða lífi í starf bæjarins. Hann getur ekki beðið eftir komandi samstarfi enda segir hann í lok viðtals: “​Þetta eru yndislegir krakkar og við vonumst til að eiga æðislegt sumar þar sem við munum kynnast hvort öðru sem og listinni betur.“

Sótt er um starf í Götuleikhúsinu á vef Kópavogsbæjar en sett er ósk inn um starf þar þegar sótt er um í Vinnuskóla Kópavogs.