Litli Steinn eins og nýr

Framkvæmdum er lokið á leikskólalóð Litla Steins, yngstu deild leikskólans Kópasteins.
Framkvæmdum er lokið á leikskólalóð Litla Steins, yngstu deild leikskólans Kópasteins.

Framkvæmdum er lokið á leikskólalóð Litla Steins, yngstu deild leikskólans Kópasteins. Þar eru nú glæný leiktæki sem gleðja yngstu kynslóðina en þar má nefna rólur, rennibraut og lítinn kastala. Svokallaðri tónlistarstofu hefur verið komið fyrir á lóðinni en þar geta börnin leikið á litrík hljóðfæri undir berum himni.

 

 

Leikskólinn Kópasteinn hóf starfsemi árið 1964 og er fyrsti leikskólinn í Kópavogi. Hann er fimm deilda leikskóli í tveimur húsum með börn á aldrinum 1-5 ára á aldursskiptum deildum. Húsið sem hýsir þau yngstu er kallaður Litli Steinn. Kópasteinn stendur í ákaflega fögru umhverfi í hjarta Kópavogs við Borgarholtið.

 

 

Stórbætt aðgengi er við Litla Stein en snjóbræðsla er nú í stígum og bætt lýsing þegar tekur að dimma. Gott aðgengi er fyrir hreyfihamlaða en nú er öll lóðin fær fyrir hjólastóla. Einnig var bætt við bílastæði fyrir hreyfihamlaða sem skortur var á.

 

 

Framkvæmdirnar eru liður í verkefninu Skemmtilegar Skólalóðir. Verkefnið hefur það að markmiði að betrumbæta og viðhalda grunn- og leikskólalóðum. Með “skemmtilegri” lóðum er hér ekki aðeins átt við að gera lóðirnar fjölbreyttari og auka notagildi þeirra fyrir alla aldurshópa, heldur einnig að sinna meiriháttar viðhaldi og eðlilegri endurgerð lóðanna sjálfra og búnaðar á þeim.