Lýðheilsufræðingur hjá Kópavogsbæ

Anna Elísabet Ólafsdóttir
Anna Elísabet Ólafsdóttir

Anna Elísabet Ólafsdóttir, doktor í lýðheilsufræðum, hefur verið ráðin sérfræðingur í lýðheilsumálum hjá Kópavogsbæ. Anna Elísabet hefur undanfarin fjögur ár starfað sem aðstoðarrektor og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Háskólans á Bifröst. Hún var fyrsti forstjóri Lýðheilsustöðvar og starfaði þar á árunum 2003-2008.

Anna Elísabet er með doktorspróf í lýðheilsufræðum frá Brunel háskóla í London. Hún hefur jafnframt MBA gráðu frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í næringarfræði frá Háskólanum í Osló og er með BS gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands.

Anna Elísabet hefur mikla reynslu af lýðheilsutengdum verkefnum, forvörnum og heilsueflingu. Hún hefur tekið virkan þátt í rannsóknarstarfi og skrifað greinar í vísindatímarit um lýðheilsumál. Þá hefur Anna mikla  reynslu af verkefnastjórnun.

Staða sérfræðings í lýðheilsumálum er ný hjá Kópavogsbæ. Kópavogsbær býður Önnu Elísabetu velkomna til starfa en hún mun hefja störf hjá bænum innan skamms.