Mikil ánægja með dagforeldra

Mikil ánægja er með þjónustu dagforeldra í Kópavogi.
Mikil ánægja er með þjónustu dagforeldra í Kópavogi.

96% foreldra barna sem eru í daggæslu hjá dagforeldrum í Kópavogi eru mjög eða frekar ánægð með dagforeldrana. Þá eru einnig 96% foreldra mjög eða fremur ánægð með samstarf við dagforeldrana og umönnun barnanna.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var meðal foreldra barna sem dvelja hjá dagforeldrum í Kópavogi. Tæplega 30 dagforeldrar starfa í bænum og var svarhlutfall í könnuninni sem gerð var á meðal foreldra um 90%.

Um 78% foreldra voru mjög eða fremur ánægð með upplýsingar frá dagforeldrum. Fram kom að  þriðjungur foreldra vissi hvar átti að gera athugasemdir við þjónustu dagforeldra, en þess má geta að daggæslufulltrúi Kópavogs tekur við þeim.

Nokkrar opnar spurninga voru í könnuninni. Meðal annars var spurt hvað foreldrum þætti best við þjónustu daggæslunnar. Meðal þess sem nefnt var til sögunnar var umhyggjusemi, reglusemi, vinsemd, útvera og sveigjanleiki. Þá var spurt hvernig bæta mætti þjónustu daggæslunnar. Í svörum við þeirri spurningu kom fram að auka mætti sveigjanleika þjónustunnar og upplýsingaflæði. Þá kom fram sú skoðun að taka ætti börn inn í leikskóla frá því að fæðingarorlofi lýkur.

Gerð hefur verið könnun meðal foreldra á þjónustu dagforeldra í Kópavogi undanfarin ár. Almenn ánægja er með starf dagforeldra í bænum að því er fram kemur í þessum könnunum.

Nánari upplýsingar um dagforeldra í Kópavogi.