Mikill fjöldi listamanna í Molanum

Vegglistarhópur Molans skreytir veggi á 17. júní í Kópavogi.
Vegglistarhópur Molans skreytir veggi á 17. júní í Kópavogi.

Skapandi sumarstörf í Kópavogi eru haldin sextánda sumarið í röð og hefur mikill fjöldi listamanna aðsetur í ungmennahúsi Molans. Þátttakendur í Skapandi sumarstörfum eru valdir hverju sinni út frá hugmyndum að verkefnum sem þau sjálf leggja fram og í ár eru 20 verkefni starfandi innan Molans. Í verkefnunum eru samtals 29 einstaklingar, ásamt fjórum í vegglistarhóp, sem eru á aldrinum 18 - 25 ára. 

 

Verkefnin eru jafn ólík og þau eru mörg en meðal verkefna má nefna málaralist, sviðsetningar, skapandi skrif, hlaðvarpsgerð og handverk. Listamennirnir vinna jafnframt heima eða á sjálfstæðri vinnustofu, enda mörg hver umfangsmikil og/eða óskrifstofuvæn, en í ár eru 20 starfsmenn með reglulega vinnustöð í Molanum.

 

Starfið er fjölbreytt og aldrei er dauð stund hjá listamönnunum. Á föstudögum eru svokallaðir deilidagar þar sem listafólkið kemur upp í Mola og borðar hádegismat saman og notar síðan eftirmiðdegið til að deila því sem þau eru að gera í ferlinu hverju sinni.

 

Nú er farið að líða að seinni kaflanum í starfinu og þá fer fólk að einbeita sér enn frekar að því að klára verkefnin sín sem verða síðan sýnd á lokahófi Skapandi sumarstarfa fimmtudaginn 22. júlí næstkomandi.