Nýr Kársnesskóli kynntur

Kársnesskóli/Batteríið.
Kársnesskóli/Batteríið.

Kynningarfundur um nýjan Kársnesskóla við Skólagerði verður haldinn í Kársnesskóla við Vallargerði fimmtudaginn 9.maí kl.17.00-18.30.

Í júní 2017 skipaði bæjarráð Kópavogs starfshóp til að móta framtíðarstefnu fyrir húsnæði Kársnesskóla. Hópurinn lagði til að gamla skólabyggingin við Skólagerði 8 yrði rifin og nýr skóli byggður í staðinn þar sem yrði samrekinn leik- og grunnskóli ásamt frístund og aðstöðu fyrir tómstundastarf og tónlistarnám.

Gamla skólabyggingin hefur verið rifin og undirbúningur framkvæmda við að endurreisa Kársnesskóla við Skólagerði er vel á veg kominn.  Að því tilefni efna bæjaryfirvöld til kynningarfundar þar sem kynnt verða forsögn að nýjum skóla og  teikningar á forhönnunarstigi af samreknum leik og grunnskóla við Skólagerði 8.  

 Auk þess verður kynnt, í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skipulagslýsins vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsvinnu fyrir skólann ásamt frumhönnun skólabyggingarinnar. Í skipulagslýsingunni koma m.a. fram helstu áherslur bæjaryfirvalda við fyrirhugaða deiliskipulagsgerð, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu, fyrirhugað skipulagsferli svo og um kynningu og samráð. Skipulagslýsing er jafnframt til kynningar í þjónustuveri bæjarins, Digranesvegi 1, frá kl. 8:30 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga og á föstudögum frá 8:30 til 15:00 og á heimasíðu bæjarins, www.kopavogur.is.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér lýsinguna. Athugasemdir eða ábendingar við  hana skulu hafa borist skriflega skipulags- og byggingardeild Umhverfissviðs, Digranesvegi 1, 200 Kópavogi eða á tölvupóstfangið skipulag@kopavogur.is  eigi síðar en mánudaginn 20. maí 2019 kl. 15:00.