Okkar Kópavogur: Niðurstöður kosninga

Íbúar völdu 34 hugmyndir áfram í Okkar Kópavogi. Myndin er af þrektækjum sem sett voru upp eftir ko…
Íbúar völdu 34 hugmyndir áfram í Okkar Kópavogi. Myndin er af þrektækjum sem sett voru upp eftir kosningar í Kópavogi 2016.

Úrbætur á vatnsnuddi í Sundlaug Kópavogs, æfingaaðstaða við Himnastigann, leiksvæði í Hamraborg, kaldur pottur í Salalaug og fjallahjólabraut við Austurkór er meðal þess sem íbúar völdu í kosningum í verkefninu Okkar Kópavogur.

Rafrænar kosningar í verkefninu hófust þann 23. janúar síðastliðinn og lauk á miðnætti þann 4. febrúar. Á kjörskrá voru 30.130 íbúar og alls kusu 15,6% íbúa. Hlutfallslega kusu flestir í Linda- og Salahverfi, eða tæp 20% kosningabærra íbúa þar.

Alls kusu 4.700 íbúar í Kópavogi, og voru konur heldur fjölmennari en karlar eða 59,4% þeirra sem kusu voru konur og 40,6% voru karlar. Flestir þátttakendur voru á aldrinum 31-40 ára, og næstfjölmennasti hópurinn voru 41-50 ára. Samtals kusu 116 manns á aldrinum 16-20, sex á aldrinum 81-90 ára og tveir á aldrinum 91-100 ára.

Alls komust 34 hugmyndir af samtals 100 áfram í kosningunni og verður 200 milljónum varið í framkvæmdir árin 2020 og 2021.

Okkar Kópavogur - niðurstaða 2020

Okkar Kópavogur - nánari upplýsingar