Okkar Kópavogur - taktu þátt

Okkar Kópavogur - Taktu þátt!
Okkar Kópavogur - Taktu þátt!
er nýtt verkefni hjá Kópavogsbæ  sem hleypt er af stokkunum í dag.


 Með því er verið að efla íbúalýðræði í bænum og auka samráð íbúa og bæjaryfirvalda. 200 milljónum króna verður varið til framkvæmda á hugmyndum sem einstaklingar geta komið á framfæri frá og með deginum í dag og út maí. 

Hægt er að koma hugmyndum á framfæri í gegnum síðuna www.kopavogur.is/okkarkopavogur eða með því að leggja þær til á íbúafundum sem haldnir verður í bænum 18.-26. maí.

Kópavogsbúar velja svo á milli hugmynda í haust.  Framkvæmd verkefna  hefst í haust og lýkur 2017 en verkefnið er hugsað til tveggja ára.

„Við vitum að Kópavogsbúar luma á fjölmörgum góðum hugmyndum og vonumst til að þeir taki sem flestir þátt í verkefninu. Ég hvet íbúa sérstaklega til að mæta á íbúafundi sem haldnir eru í tengslum við verkefnið. Þar er kjörinn vettvangur til að koma hugmyndum á framfæri og ræða hvernig gera má bæinn enn betri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Verkefnið er hluti af aukinni lýðræðisvæðingu hjá Kópavogsbæ, kallað hefur verið eftir þátttöku íbúa í verkefnum á borð við gerð lýðheilsustefnu og hverfisáætlana.

„Það er mikil lýðræðisvakning í samfélaginu og við hjá Kópavogsbæ erum að bregðast við því með því að virkja íbúa til þátttöku í margvíslegum verkefnum. Okkar Kópavogur er dæmi um það, hér er íbúum boðið að koma með hugmyndir að verkefnum og forgangsraða þeim,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs.

Nánari upplýsingar um verkefnið www.kopavogur.is/okkarkopavogur