Rammstein í Kórnum: Umferðatakmarkanir

Rammstein í Kórnum
Rammstein í Kórnum

Laugardaginn 20.maí verður hljómsveitin Rammstein með tónleika í Kórnum í Kópavogi. Til þess að allt gangi vel fyrir sig verður umferð í nágrenni Kórsins takmörkuð frá klukkan 18.00 tónleikadag en þá opnar Kórinn.

Íbúar í Kórahverfi sem búa í götum þar sem umferð hefur verið takmörkuð fá senda umferðapassa frá tónleikahaldara. Þetta á við íbúa í Austur-, Valla-, Vinda- og Tröllakór. Sendir verða þrír  umferðarpassar í hverja íbúð og verður þeim dreift miðvikudaginn 17.maí.

Tónleikagestir eru hvattir til að nota almenningssamgöngur, leigubíla, ganga eða hjóla. Fríar ferðir fyrir tónleikagesti verða frá Smáralind (vesturenda) frá klukkan 18.00. Bílar með fjóra eða fleiri tónleikagesti í bílnum geta lagt á bílastæði í grennd við Kórinn. Athugið að allir í bílnum verða að vera með miða á tónleikana.Ef þetta stæði fyllist verður bílum vísað í Smáralind. 

Umferðaskipulag í tengslum við tónleikana er unnið í samvinnu tónleikahaldara, Kópavogsbæjar, lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðsins. Byggt er á reynslu af tónleikahaldi í Kórnum en þetta eru fjórðu tónleikarnir þar sem umferðatakmörkun er beitt í tengslum við tónleika í Kórnum.  

Um 16.000 miðar eru seldir á tónleikana með Rammstein. Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 með hljómsveitinni Ham sem hitar upp. Rammstein spilar frá klukkan 21.00 til 22.30. 

Á meðfylgjandi korti má sjá hvar umferð verður takmörkuð næsta laugardag. Athugið að tryggt verður að íbúar komist leiðar sinnar. Þeir sem eru á ferðinni eru beðnir um að hafa íbúapassann með sér. 

 Kort sem sýnir takmarkanir á umferð

 

Akstur Strætó vegna Rammstein tónleika.

Strætó verður með sérakstur vegna Rammstein tónleikanna laugardaginn 20. maí.

Akstur hefst kl. 18:00 og ekið verður frá bílastæðaplaninu sunnan megin við Smáralind. Ekki verður stuðst við sérstaka tímaáætlun, heldur verður ekið eftir þörfum. Þegar nægilega margt fólk verður komið í hvern vagn þá verða þeir sendir af stað og þannig munu þeir ganga þar til að tónleikum lýkur og sem flestir farnir af tónleikasvæðinu. Ekið verður milli Smáralindar og Kórs um Reykjanesbraut og Vífilstaðaveg.

Frítt er í vagninn og öllum tónleikagestum velkomið að nýta sér þessa þjónustu.

Myndin hér að neðan sýnir hvar vagnarnir verða staðsettir fyrir sunnan Smáralind. 

Sérakstur Strætó vegna Rammstein tónleika