Samræmt flokkunarkerfi sorps hefst í vor

Flokkun sorps breytist í vor.
Flokkun sorps breytist í vor.

Nýtt flokkunarkerfi í Kópavogi og höfuðborgarsvæðinu öllu verður innleitt í vor. Engar breytingar verða um áramót.

Tunnuskipti hefjast í vor – engar breytingar við heimili um áramót

Nokkurs misskilnings hefur gætt meðal íbúa vegna þessa og hafa sumir talið að tunnuskipti muni hefjast strax í byrjun næsta árs. Hið rétta í málinu er hins vegar að breytingar á tunnum íbúa, ef einhverjar verða, hefjast í fyrsta lagi í vor. Íbúar í Kópavogsbæ þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir þegar tunnuskiptin koma til framkvæmda næsta vor nema að vera dugleg að flokka.

Með lögum um hringrásarhagkerfi, sem taka gildi um áramótin, verður skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili: pappír, plastumbúðir, lífrænan úrgang (matarleifar) og blandaðan úrgang.

Meginmarkmið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er og í flestum tilfellum verður leitast við að koma tunnum fyrir í því rými sem er þegar til staðar við heimili.

Þetta verður stórt framfaraskref í umhverfis- og loftslagsmálum en meðal annars munu öll heimili fá tunnu fyrir matarleifar.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um þetta verkefni á flokkum.is