Viktoría Guðmundsdóttir frá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu, Guðríður Hrund Helgadóttir , skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs og
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, forstjóri hjúkrunar frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf vegna barna í viðkvæmri stöðu.
Kópavogsbær stóð þann 18. september að vinnustofu í samstarfi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu með það að leiðarljósi að stuðla að þverfaglegu samstarfi og efla stuðning við börn í viðkvæmri stöðu.
Að lokinni vinnustofu var undirrituð viljayfirlýsing Kópavogsbæjar, Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslunnar og Menntaskólans í Kópavogi um samstarf vegna barna í viðkvæmri stöðu í sveitarfélaginu.
Markmið samstarfsins er að bregðast við auknu og alvarlegra ofbeldi meðal barna með því að byggja upp samþætt og faglegt samstarf sem dregur úr líkum á ofbeldisbrotum og stuðlar að farsæld barna. Börn í viðkvæmri stöðu eru einstaklingar yngri en 18 ára sem geta verið þolendur eða gerendur í ofbeldismálum og falla undir tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Þar er til dæmis um að ræða börn sem búa við óviðunandi uppeldisaðstæður, verða fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofna heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
„Samstarfið er mikilvægt skref til að tryggja að öll börn sem búa við erfiðar aðstæður fái snemmtækan og markvissan stuðning,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs. „Með því að samhæfa krafta okkar getum við dregið úr líkum á ofbeldisbrotum og stuðlað enn betur að farsæld allra barna í Kópavogi.“
Vinnustofa í Kópavogi lagði grunninn
Fjölbreyttur hópur fagfólks kom saman á vinnustofunni sem haldin var í veislusal HK í Vallakór, fólks sem vinnur daglega að því að skapa öruggt og uppbyggilegt umhverfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Kópavogi. Á vinnustofunni fluttu sérfræðingar, stjórnendur, foreldri og ungmenni stutt erindi, meðal annars um farsæld barna, samstarf, ofbeldi og forvarnir, auk þess sem unnið var í umræðuhópum um hvernig bæta megi samstarf aðila sem vinna að farsæld barna.
Stuðningur ráðuneyta og víðari innleiðing
Verkefnið er hluti af heildstæðri vinnu hjá lögreglunni við mótun á varanlegum stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra, en verkefnið var styrkt af bæði félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Stefnt er að því að verklagið í Kópavogi muni nýtast við mótun verklagsreglna ríkislögreglustjóra fyrir lögregluna vegna barna í viðkvæmri stöðu, þar með talið hlutverk lögreglu vegna laga um samþættingu þjónustu til farsældar barna, rannsókn ofbeldisbrota meðal barna og ungmenna og verklag um tilkynningar á milli lögreglu, barnaverndar og skóla þegar kemur að ofbeldi gegn börnum.