Skoða hvort nýta megi undirgöngin

Undurgöngin í Kópavogi
Undurgöngin í Kópavogi

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar er að skoða hvort og þá hvernig nýta megi undirgöngin að gömlu skiptistöðinni í Kópavogi. Göngin voru áður einn helsti samkomustaður ungmenna úr bænum. Ráðið fór í vettvangsferð um göngin á síðasta fundi sínum en með í för var m.a. Valgarður Guðjónsson, tónlistarmaður með meiru, sem undirbýr pönkhátíð í bænum með stuðningi ráðsins. Göngin hafa undanfarin ár verið læst almenningi.

Pétur Ólafsson bæjarfulltrúi lagði í haust fram tillögu í bæjarráði um að bærinn efndi til hugmyndasamkeppni um nýtingu ganganna. Tillögunni var vísað til lista- og menningarráðs og á fundi sínum 10. október bókaði ráðið: „Ákveðið að fara í ákveðna hugmyndavinnu um hvernig nýta eigi göngin og svæðið í kring.“

Undirgöngin lágu upphaflega frá gömlu skiptistöðinni að gamla Pósthúsinu við Digranesveg. Þau tengdu jafnframt Hamraborgina við samgöngur. Í greinargerð með fyrrnefndri tillögu segir að undirgöngin hafi leikið stórt hlutverk í pönkmenningunni á áttunda og níunda áratugnum og að graffiti listin á Íslandi hafi þar jafnframt slitið barnsskónum. 
 
Enn má sjá graffiti verk í göngunum eins og meðfylgjandi mynd ber með sér en hún var tekin í vettvangsferðinni. 
 
Formaður lista- og menningarráðs er Karen E. Halldórsdóttir.