Stígum fjölgar í Kópavogsbæ

Reiðhjólastígur við Ásbraut.
Reiðhjólastígur við Ásbraut.

Reiðhjólastígur við Ásbraut í Vesturbæ Kópavogs er viðbót við stígakerfi í Kópavogsbæ en hann var tekinn í notkun í vor. Stígurinn er liður í því að framfylgja hjólreiðaáætlun Kópavogsbæjar frá árinu 2012. Meðal markmiða áætlunarinnar er það sé öruggt og aðgengilegt að hjóla í Kópavogi.

Breikkun stígsins sem liggur meðfram Hafnarfjarðarvegi á leiðinni frá Garðabæ til Reykjavíkur er meðal þess sem gert hefur verið til þess að greiða leið hjólreiðafólks. Þá lagður í fyrra stígur meðfram Reykjanesbraut frá Mjódd yfir í Lindahverfi. Sá stígur, sem lagður var í samvinnu við Reykjavíkurborg, nýtur mikilla vinsælda rétt eins og fleiri hjólastígar í Kópavogi.

Kópavogsbær hefur lagt megináherslu á að laga og breikka stíga í bænum, til þess að gera hjólreiðar á stígum í Kópavogsbæ auðveldari og öruggari. Þá hafa helstu hjólaleiðir notið forgangs í snjómokstri að vetri til.

Hjólreiðaáætlunin var unnin til fimm ára. Í henni er áhersla lögð á að tengja saman helstu leiðir stígakerfisins um Kópavog og tengja leiðirnar við nærliggjandi sveitarfélög. Þá er markmið hjólreiðaáætluninnar að stuðla að auknum hjólreiðum í bænum.

Þess má geta að í lok árs 2013 voru samtals 13 kílómetrar malbikaðir stígar fjarri umferð og 300 hjólastæði við skóla, sundlaugar og stofnanir Kópavogsbæjar.