Stóraukin þjónusta Strætó í Kópavogi

Aðalskiptistöð Strætó í Kópavogi er í Hamraborg.
Aðalskiptistöð Strætó í Kópavogi er í Hamraborg.

Breytingar á leiðarkerfi Strætó sem taka gildi 7. janúar fela í sér stóraukna þjónustu fyrir íbúa í Kópavogi.

Hér má nefna að leið 35 sem ekur hringleið um Kársnes og Digranes með endastöð á skiptistöð í Hamraborg hefur akstur í báðar áttir, sem þýðir tvöföldun á þjónustu strætó á þessu svæði.

Breytingin þýðir að ferðatíma frá Kársnesi í Hamraborg styttist verulega. Sem dæmi styttist ferðatími frá Kársnesskóla að Hamraborg í 4 mínútur úr 20 mínútum. Nýjar biðstöðvar hafa verið settar upp fyrir hringleiðina. 

Vagnarnir eru merktir 35 réttsælis og 35 rangsælis. Réttsælis fer fyrst út á Kársnes og svo um Digranesið. Sú leið fer sömu leið og leið 35 fór. Rangsælis byrjar í Digranesi, fer svo á Kársnes og loks í Hamraborg.

Leið 2 verður lengd og ekur nú alla leið í Ögurhvarf með endastöð í Mjódd. Leið 2 mun aka um Arnarnesveg og því styttist ferðatími úr Vatnsenda í Smáralind, eða Hamraborg um helming. Sem dæmi er ferðatími frá Hörðuvallaskóla í Hamraborg eftir breytingar 12 mínútur en var 25 mínútur. Ferðatími frá Hörðuvallaskóla í Smáralind fer úr 11 í 6 mínútur.

Leiðin er ekin að næturlagi um helgar, undir heitinu 102.

Leið 28 breytist og mun aka frá Hamraborg í gegnum Salahverfi og alla leið í Þingahverfi. Leiðin ekur ekki lengur um Dalsmára, en stoppar þess í stað á Fífuhvammsvegi. Rétt við hringtorgið við Dalsmára er stoppistöð sem er sú stöð sem nýtist þeim sem eiga leið í Smáraskóla eða í Breiðablik.

Þá má benda á að leið 21 sem ekur úr Hafnarfirði í Mjódd mun stoppa við Smáralind sem er veruleg samgöngubót við verslunarmiðstöðina.

 „Það er tenging við fjölmargar leiðir um höfuðborgarsvæðið í Hamraborg og með breytingunum styttist ferðatími verulega þangað, bæði af Kársnesi og frá Vatnsenda svo dæmi séu tekin úr sitthvorum hluta bæjarins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri. „Við höfum lagt mikla áherslu á almenningssamgöngur í tengslum við uppbyggingu á Kársnesi, þessar breytingar sýna að þær eru ekki orðin tóm. Við höfum fylgt þessum áherslum eftir hjá Strætó, íbúum Kópavogs til hagsbóta.“

Nánari upplýsingar um leiðarkerfið er að finna á vefsíðu Strætó.