Frá vinstri: Védís Hervör Árnadóttir, umbóta- og þróunarstjóri, Jakob Sindri Þórsson, teymisstjóri stafrænnar þróunar, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Sigurður Davíð Stefánsson frá Evolv, Viktor F. Shala kerfisstjóri, Eva Rut Bernhöft Reynisdóttir frá Evolv og María Ómarsdóttir frá Evolv. Á myndina vantar Rebekku Rán Figueras Eriksdóttur frá Evolv.
Kópavogsbær hefur gert samning við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Evolv um innleiðingu stafræns vinnuafls. Markmiðið er að tímafrek verkefni sem krefjast mikillar handavinnu verði leyst af stafrænu vinnuafli. Þannig eykst skilvirkni og samræmi í þjónustu við íbúa bæjarins. Starfsfólki gefst um leið betri tími til þess að sinna flóknari verkefnum og veita persónulega þjónustu.
Samningurinn markar upphaf að stafrænni umbreytingu í þjónustu bæjarins þar sem sjálfvirknivæðing ferla er í forgrunni. Fyrstu verkefnin sem stafræna vinnuaflið sinnir hefur þegar verið hleypt af stokkunum og beinast að lykilferlum á skrifstofu áhættu og fjárstýringar.
Verkefnið er leitt af Jakobi Sindra Þórssyni, teymisstjóra stafrænnar þróunar hjá Kópavogsbæ, en tæknileg útfærsla er í höndum Viktors F. Shala, kerfisstjóra. Hjá Evolv stýra Sigurður Davíð Stefánsson og Rebekka Rán Figueras Eriksdóttir innleiðingunni. Samstarfið byggir á nánu samstarfi milli starfsfólks Kópavogsbæjar og sérfræðinga Evolv.
„Við hjá Kópavogsbæ leggjum mikla áherslu á stafræna þróun og nýsköpun í þjónustu. Samningurinn við Evolv gerir okkur kleift að taka stór skref í að sjálfvirknivæða ferla sem hingað til hafa krafist umfangsmikillar handavinnu. Tími starfsfólks mun því nýtast betur og þjónustu við íbúa og hagaðila batna,“ segir Jakob Sindri Þórsson.
Með innleiðingu stafræns vinnuafls verður Kópavogsbær, undir forystu stafræns þróunarteymis á Skrifstofu umbóta og þróunar, meðal fremstu sveitarfélaga á Íslandi í nýtingu stafrænnar tækni til að bæta stjórnsýslu og þjónustu. Stafræna vinnuaflið getur unnið allan sólarhringinn og þar með tryggt hraðari afgreiðslu og jafnari þjónustugæði.
Meira um sjálfvirknivæðingu ferla