Tók vel á móti Ragnari Má

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Ragnar Már Garðarsson.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Ragnar Már Garðarsson.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri tók vel á móti Ragnari Má Garðarssyni kylfingi úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar um helgina og færði honum blómvönd með góðum kveðjum frá bæjarstjórn. Ragnar gerði sér lítið fyrir og sigraði á Duke of York mótinu á Royal Troon vellinum í Skotlandi. Mótið er virt unglingamót en einungis landsmeistarar unglinga hafa rétt til að taka þátt.

Á vef GKG segir að Ragnar hafi verið afar sigursæll á tímabilinu og fyrir skömmu var hann valinn efnilegasti kylfingurinn af afreksnefnd GSÍ.
 
Ármann sagði er hann færði Ragnari Má blómvöndinn að með því vildi hann heiðra hann og veita honum viðurkenningu fyrir hans góða afrek og starf hjá GKG.
 

Tímabilinu er ekki lokið hjá Ragnari, en á mánudaginn heldur hann til Búlgaríu ásamt félaga sínum úr GKG, Emil Þór Ragnarssyni, og fjórum öðrum kylfingum sem skipa piltalandslið Íslands, en þeir munu keppa í undankeppni EM pilta.

Kópavogsbær óskar Ragnari Má til hamingju með glæsilegan árangur.