- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Útskriftartónleikar tónlistardeildar Listaháskóla Íslands fara fram í Salnum í apríl og maí samkvæmt samkomulagi Salarins, Listaháskóla Íslands og lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar. Samningurinn var undirritaður í dag og nær til þriggja ára.
Þar með verður eins konar uppskeruhátíð LHÍ í tónlist, myndlist og hönnun á menningartorfu Kópavogsbæjar á vorin því fyrr í vetur var ákveðið að útskriftarsýningar meistaranema í myndlist og hönnun yrðu haldnar í Gerðarsafni.
Útskriftartónleikarnir eru fjármagnaðir með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar en tilgangur sjóðsins er að efla menningarlífið í bænum. Aðgangur að tónleikum LHÍ verður ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Tónleikarnir verða auglýstir á vef Listaháskóla Íslands og Salarins.
Salurinn og Gerðarsafn standa hlið við hlið en á sömu torfu er einnig Tónlistarsafn Íslands. Með samningnum í dag fær tónlistardeild LHÍ einnig aðgang að því safni fyrir útskriftarnema skólans og verkefni þeirra.
Samningurinn var undirritaður af þeim Karen E. Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs, Aino Freyju Järvelä, forstöðumanni Salarins, Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor Listaháskóla Íslands, og Kjartani Ólafssyni, prófessor við LHÍ.
Fríða Björk Ingvarsdóttir: „Þessi samningur er Listaháskóla Íslands mikils virði því hann gerir okkur kleift að bjóða útskriftarnemum okkar í tónlist að vinna lokaverkefni sín í fullkomlega faglegu umhverfi. Slíkt skiptir miklu máli, ekki síst vegna þess að við vitum að þessir nemendur eiga eftir að setja mark sitt á tónlistarlífið í framtíðinni og útskriftartónleikarnir eru iðulega þeirra fyrsta skref inn í atvinnumennsku á sviði tónlistar. Aðstæður í Salnum eru allar til mikillar fyrirmyndar og sannarlega ánægjulegt að kynna þar til sögunnar nýja kynslóð tónlistarmanna og um leið afrakstur skólastarfsins.“
Karen E. Halldórsdóttir: „Það er okkur mikið ánægjuefni hér í Kópavogi að ganga til nánara samstarfs við Listaháskóla Íslands. Menningartorfan okkar í Kópavogi mun iða af lífi á vorin þegar ungir og frjóir listamenn frá Listaháskóla Íslands kynna þar listsköpun sýna í Salnum, Gerðarsafni og jafnvel í Tónlistarsafni Íslans. Um leið auðgum við menningarlífið og styrkjum enn frekar starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar.“