Metnaður, umhyggja og gleði í félagsmiðstöðvunum

Frá söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi.
Frá söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi.

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan er haldin hátíðleg dagana 15.-19. nóvember. Vikan hefur það að markmiði að kynna það mikilvæga starf sem fram fer í félagsmiðstöðvunum og ungmennahúsinu fyrir börn og ungmenni. Starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa er í eðli sínu forvarnastarf og ætlað að styðja við félagsfærni, sjálfseflingu, sköpun og heilbrigði ungs fólks. Lögð er áhersla á að félagsmiðstöðvarnar og ungmennahús sé öruggur staður fyrir ungt fólk þar sem það er alltaf einhver til staðar til að hlusta á þau, ræða málin, spegla skoðanir sínar og veita þeim rými til þess að þroskast og eiga heilbrigð samskipti við jafnaldra og starfsfólk. Starfsfólk leggur ríka áherslu á að bjóða alla velkomna og að allir hafi sitt pláss í félagsmiðstöðinni og ungmennahúsinu.

Félagsmiðstöðvar í öllum skólahverfum bæjarins

Í Kópavogi eru allar félagsmiðstöðvar starfræktar í öllum hverfum bæjarins við níu grunnskóla. Frístundaklúbbarnir Hrafninn er sértæk félagsmiðstöð sem býður upp á fjölbreytt frístundastarf fyrir börn og unglinga með fötlun. Í Kópavogi er svo ungmennahúsið Molinn sem er opið ungu fólki á aldrinum 16-25 ára þar sem boðið er upp á jákvætt og vímulaust umhverfi og afþreyingu af ýmsum toga. Ungmennahúsið Molinn er staðsettur að Hábraut 2 (rétt við Hamraborgina-beint á móti Tónlistarhúsinu Salnum og Gerðarsafni).

Kynnið ykkur starf félagsmiðstöðvanna og ungmennahúss

Kópavogsbær hvetur aðstandendur til að kynna sér starf félagsmiðstöðvanna, börn og ungmenni til að nýta sér þjónustuna og þakkar á sama tíma starfsfólki, börnum og ungmennum fyrir þeirra framlag í mótun á frístundastarfi sem einkennis af metnaði, umhyggju og gleði ! Frekari upplýsingar um starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúss má finna á heimasíðu bæjarins.

Nánari upplýsingar:

Félagsmiðstöðvar 

Ungmennahúsið Molinn