Okkar Kópavogur: Hugmyndasöfnun hefst

Þrektæki í Kópavogsdal eru á meðal hugmynda sem Kópavogsbúar völdu í kosningum 2016 í verkefninu Ok…
Þrektæki í Kópavogsdal eru á meðal hugmynda sem Kópavogsbúar völdu í kosningum 2016 í verkefninu Okkar Kópavogur.

Hugmyndasöfnun í íbúalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur er hleypt af stokkun í dag. Þetta er í annað sinn sem Kópavogsbær stendur fyrir verkefninu. Slegið var þátttökumet í verkefninu í fyrra, bæði í fjölda hugmynda sem komu fram og þátttöku í kosningunum.

Frá 1. til 22. september verður hægt að setja inn hugmyndir á vef og á því tímabili verða einnig haldnir íbúafundir þar sem fólk getur komið sínum hugmyndum á framfæri. Kosið verður í ársbyrjun 2018 á milli hugmynda og framkvæmdir hefjast vorið 2018. 200 milljónum er varið til framkvæmda verkefna.

Meðal þess sem íbúar völdu í fyrra eru þrektæki í Fossvogs- og Kópavogsdal, mínígolf í Guðmundarlundi, leiktæki á leikvöllum og skólalóðum, vatnspóstar, bætt umferðaröryggi og útsýnisstaðir. Framkvæmd flestra verkefnanna er lokið en þau síðustu verða kláruð í haust.

„Kópavogsbúar tóku þessari nýbreytni afar vel í fyrra. Verkefni íbúa hafa sett svip sinn á bæinn og eru í mikilli notkun íbúa sem kunna greinilega vel að meta framtakið,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Fimm íbúafundir verða haldnir á næstunni í hverfum Kópavogs, sá fyrsti verður í Lindaskóla 4. september, í Hörðuvallaskóla 5. september, í Smáraskóla 11. september, í Kópavogsskóla 14. september og í Kársnesskóla 18. september. Með því að mæta á fundina er hægt að auka líkur á framgangi hugmyndar vegna þess að allt að 10 hugmyndir frá hverjum fundi fara í kosningu. Íbúafundir hefjast kl. 17.00.

„Íbúafundirnir í fyrra voru vel sóttir og margar frábærar hugmyndir litu þar dagsins ljós. Við hvetjum sem flesta til að mæta og tala fyrir sinni hugmynd. Með þátttöku í þessu íbúalýðræðisverkefni forgangsraða íbúar fjármagni og hafa bein áhrif á bæjarfélagið,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs.

Verkefnið er hluti af aukinni lýðræðisvæðingu hjá Kópavogsbæ, kallað hefur verið eftir þátttöku íbúa í verkefnum á borð við gerð lýðheilsustefnu og hverfisáætlana.

Viltu setja inn hugmynd? Smelltu hér.

Viltu lesa meira um verkefnið? Smelltu hér