Laugardaginn 28. maí verður fjölskyldustund í Salnum sem er sérlega áhugaverð fyrir fjölskyldur sem elska tónlist…og fótbolta! Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13 með frumflutningi á FótboltaÓperunni eftir Helga Rafn Ingvarsson.
Laugardaginn 21. maí frá 13-17 verður „Hjóladagur fjölskyldunnar“ haldinn við Menningarhús Kópavogs.
Á útivistarsvæðinu við Menningarhúsin verður boðin ástandsskoðun á hjólum sem vert er að nýta sér nú þegar sumarið er framundan.
Hægt er að sækja um garðlönd til leigu á sex stöðum í Kópavogsbæ. Hver skiki er 25 fermetrar að stærð og er leigugjald 4.700 krónur. Hver leigjandi getur verið með tvo skika en skilyrði fyrir úthlutun er að eiga lögheimili í Kópavogi. Garðlönd eru plægð og afhent um miðjan maí ef veður leyfir.
Rúmlega 6.000 gestir heimsóttu Bókasafn Kópavogs vikuna eftir að safnið var opnað á ný eftir viðamiklar breytingar á innra rými þess. Með breytingunum var leitast við að mæta betur þörfum safngesta. Til dæmis er nú meira pláss fyrir gesti sem vilja glugga í bókum eða tímaritum og barnadeild safnsins var færð niður á fyrstu hæð en áður var hún á þriðju hæðinni.
Um 350 bæjarbúar á öllum aldri tóku þátt í sameiginlegri vorhreinsun Kópavogsbæjar og íbúa bæjarins sem fram fór 16. apríl, 18. og 19. apríl. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til hreinsunarátaks á bæjarlandi og var lögð áhersla á skólalóðirnar og næsta nágrenni. Boðið var upp á pylsur og drykki fyrir þá sem tóku þátt og ríkti almenn ánægja með framtakið.
Fjölmargir gerðu sér ferð í menningarhúsin í Kópavogi á sumardaginn fyrsta. Þá var bryddað upp á þeirri nýbreytni að vera með opið hús og bjóða fjölbreytta dagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Dagskráin er hluti af barnamenningarhátíð sem fram fer þessa dagana á höfuðborgarsvæðinu og hluti af Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs.
Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 161 milljón króna árið 2015. Þá lækkaði skuldahlutfall bæjarins í 162,5% á árinu, sem er ívið meiri lækkun en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Niðurstaðan er góð í ljósi mikilla launahækkana og stóraukins framlags til lífeyrisskuldbindinga í kjölfar kjarasamninga síðasta árs.